Verðlaunavín frá Katalóníu

Vínhúsið Bodegas Roqueta er staðsett í Pla de Bages í Katalóníu á Spáni og var stofnað árið 1898 af Ramón Roqueta Torrentó.  Roqueta-fjölskyldan hefur þó tengst vínrækt á Bages-svæðinu í margar aldir.  Síðan 1898 hafa fjórir ættliðir helgað sig vínræktinni og vínframleiðslu.  Hjá Bodegas Roqueta er hefðin rík þegar kemur að bragði og staðbundnar þrúgur notaðar en þegar kemur að framleiðsluaðferðum er um nýjustu tækni og aðferðir að ræða.  Þetta gefur þeim kost á að bjóða upp á breytt úrval vína allt frá því að vera vín sem hafa verið látin þroskast í yfir 20 ár og til vína sem endurspegla nýjustu tækni og aðferðir í vínheiminum almennt.

RR Rerserva (1)


4star

 

Ramon Roqueta Reserva 2012 er blanda af tempranillo og cabernet sauvignon sem er frekar algeng blanda í norðurhluta Spánar. Vínið er létt og ávaxtaríkt með rauðum berjum. Léttkryddað og með léttan kaffi- og vanillukeim. Vínið er langt og fylgið sér og nokkuð tannískt, og hefur langa sýrumikla endingu. Frábært matarvín.

 

Víngarðurinn Vín og Fleira segir;

Síðast þegar þetta vín rak á fjörur Víngarðsins var það árgangurinn 2010 (***1/2) og árgangurinn 2012 er jafnvel heldur betri, sem gerir vínið að einum betri kaupunum í Vínbúðunum í dag. Það hefur meðaldjúpan kirsuberjarauðan lit sem komin er með múrsteinstóna og meðalopna angan af rauðum berjum, lakkrís, dökkum sultuðum berjum, eikartunnum, sveskju, balsam og þurrkuðum appelsínuberki. Í munni er það meðalbragðmikið, þurrt með fína sýru og mjúk tannín og jafnvægið er prýðilegt. Þarna rekst maður á rauð ber, dökk sultuð ber, eikartunnu, plómu, balsam og þurrkaðan appelsínsubörk. Einfalt en bara afskaplega vel gert rauðvín sem fer vel með flestum kjötkenndum hversdagsmat, pottréttum, pítsu, pasta og rauðu kjöti. Verð kr. 1.899.- Frábær kaup.

Share Post