Jæja, þá er alveg að bresta á með jólahátíðinni í öllu sínu veldi. Ef að líkum lætur er undirbúningur á lokastigi, jólatréð skreytt, gjafir komnar í jólapappír og maturinn ákveðinn, ef ekki keyptur nú þegar. Veislurétturinn á aðfangadag er oftast bundinn hefð á hverju heimili, enda er það stór hluti hinnar hátíðlegu stemningar. Öðru máli gegnir með vínið fyrir veisluna – hvað eigum við að bera fram með steikinni í ár? Það fer alveg eftir því hver steikin er. Stundum er valið borðleggjandi og blasir við, og stundum er hin mesta ráðgáta að velja vínið.
Vín með hamborgarhrygg
Hamborgarhryggur er samkvæmt síðustu tölum vinsælasti jólamaturinn á veisluborðum okkar Íslendinga enda kitlar hann bragðlaukana með sykri, salti og léttum reyk, allt í senn, safaríkur og mjúkur undir tönn. Það er allt saman gott og blessað en hér á ferðinni svo flókið tónverk af mismunandi bragðnótum að það er talsverð kúnst að finna rétta vínið til að para við matinn. Flestir eru sammála um að heppilegustu vínin eru annaðhvort létt, ávaxtarík og frískleg rauðvín, svosem Pinot Noir frá Nýja Sjálandi, Merlot frá Ítalíu, eða þá höfugt og þykkt hvítvín – Pinot Gris frá Frakklandi, nema hvað! Hann er sætur og þéttur með hitabeltisávexti í nefi, möndlutóna og jafnvel keim af hunangi. Smellpassar!
Vinó mælir með:
Willm Pinot Gris Réserve 2015
Fallega ljósgullið á lit með aðlaðandi ávaxtakeim í nefi. Vottur af hunangi, melónum og keimur af reyktum við kemur við sögu. Vín með mikla fyllingu og hunangskennt með ríkulegan ávöxt sem samsvarar sér frábærlega með hamborgarahryggnum.
Verð. 2.499 kr.
Vín með rjúpu
Villibráð er listagóður matur, ekki síst sú íslenska, og bráðskemmtilegt að para hana með víni. Rjúpan er ein bragðmesta villibráðin og þar af leiðandi ekki út í bláinn að flestir velja hér rauðvín úr Shiraz-þrúgunni enda er hún er ein allra besta þrúgan til að hafa með villibráð. Shiraz-vín, til dæmis frá Ástralíu, hafa til að bera höfugan keim af sultuðum og krydduðum ávexti sem er framúrskarandi með villibráð. Góður Pinot Noir fer líka vel með rjúpunni enda er þar að finna kirsuberjanótur og krydd. Þéttur og kraftmikill Cabernet Sauvignon passar einnig vel með villibráð á borð við rjúpu, sömuleiðis með hreindýrasteikinni.
Vinó mælir með:
Emiliana Coyam 2012
Lýsing: Djúp plómurautt á lit. Höfugur keimur af sultuðum ávexti, rifsber, jarðarber og brómber. Aðrir tónar af kryddi eins og vanillu og lakkrís koma upp. Safaríkt vín í góðu jafnvægi, þroskuð tannín og yfirveguð sýra. Löng og góð ending. Vín sem passar fullkomlega með rjúpunni.
Verð. 3.499 kr.
Vín með kalkún
Þegar ljóst kjöt er annars vegar leitar hugurinn samkvæmt hefðinni í hvítvínin, og það er gott og blessað. En það má líka geta stórkostlega bragðuppgötvun með rétta rauðvíninu til að hafa með kalkúna. Pinot Noir frá nýja heiminum eru dæmi um afbragðsgóð vín með kalkún.
Vinó mælir með:
Adobe Reserva Pinot Noir
Lýsing: Ljósjarðarberjarautt. Létt meðalfylling, mild sýra og mild tannín. Rauð ber, laufkrydd. Vín sem passar fullkomlega með kalkún.
Verð. 1.999 kr.
Vín með hangikjöti
Leitt að segja það en þessi fyrirsögn er nánast þversögn – fyrir þá einföldu ástæðu að það er nánast ógerningur að para saman hangikjöt og vín enda er kjötið oft taðreykt, jafnvel tvíreykt, og brimsalt í þokkabót. Það er ekkert að því að vera ævintýragjarn og prófa sig áfram en mikil reynsla margra sælkera kennir þau einföldu vísindi að þetta gengur eiginlega bara ekki upp, svo ekki spandera sparivíninu í þess háttar tilraunastarfsemi. Besta ráðið er að hvíla vínin og opna dökkan bjór í staðinn, þéttan Porter eða Doppelbock, til að hafa með hangikjötinu og fyrir þá sem ekki ráða við svo dökkan og bragðmikinn bjór er rétt að hella bara gamla góða jólablandinu í könnu.
Vinó mælir með:
Leffe Royale Whitbread Golden Magnum
Lýsing: Rafgullinn, ósætur, mjúkur með miðlungsbeiskju. Höfugur, ristað malt, karamella, negull, þurrkaðir ávextir og grösugir humlar. Frábær bjór með hangikjötinu.
Verð: 2.399 kr.
Er villibráð á boðstólnum í ár? Lestu þá grein okkar Vín með villtum mat