Hátíðar kalkúnabringa með sætkartöflumús, sveppasósu og rósakálssalati

Fyrir 4

Kalkúnabringa

Hráefni

Kalkúnabringa með skinni, 1,2 kg

100 g smjör / Við stofuhita

Kalkúnakrydd, 1,5 msk / Kryddhúsið

 

Aðferð

Blandið saman mjúku smjörinu, kalkúnakryddi og 1 msk af flögusalti.

Setjið kalkúnabringuna í eldfast mót. Notið skeið (snúið kúptu hliðinni upp) eða fingurnar til þess að losa skinnið frá kjötinu svo hægt sé að koma smjöri undir það. Varist að rífa skinnið og ekki losa allt skinnið frá. Við viljum mynda hálfgerðan vasa úr skinninu sem hægt að er að setja smjör undir.

Saltið og piprið kalkúnabringuna svolítið (munið þó að það er salt í smjörinu). Dreifið smjörinu yfir kalkúninn og rausnarlega undir skinnið. Setjið kjöthitamæli í þykkasta part bringunnar.

Forhitið ofn í 230°C með yfir og undirhita. Setjið kalkúninn inn í ofn í næst-neðstu grind og lækkið hitann á ofninum strax í 180°C. 

Bakið í 80-90 mín Eða þar til kjarnhiti hefur náð 72°C. Fylgist með svo skinnið brúnist ekki of mikið, en ef það fer að gerast má leggja álpappír yfir bringuna restina af bökunartímanum. Takið bringuna úr ofninum og látið hvíla undir álpappír í 10 mín áður en hún er skorin (kjarnhitastig ætti að hækka um nokkrar gráður á meðan). 

 

Sveppasósa

Hráefni

Rjómi, 500 ml

Sveppir, 200 g

Sveppateningur, 1 stk

Hvítlaukur, 1 rif

Timian ferskt, 3 g

Hvítvín, 120 ml

Skalottlaukur, 40 g

Sósujafnari, eftir þörfum

 

Aðferð

Sneiðið sveppi, saxið skalottlauk og hvítlauk, týnið timianlauf frá stilkunum og saxið smátt.

Bræðið smjörklípu á pönnu og steikið sveppi við miðlungshita þar til þeir eru fulleldaðir og farnir að taka smá lit. Bætið söxuðum skalottlauk út á pönnuna og steikið þar til laukurinn mýkist. Bætið hvítlauk út á pönnuna og steikið þar til hann fer að ilma.

Bætið hvítvíni út á pönnuna og látið sjóða niður um helming. Bætið rjóma og sveppatening út á pönnuna og látið malla rólega þar til sósan fer að þykkjast aðeins. Notið sósujafnara ef þarf. Smakkið til með salti og pipar.

 

Sætkartöflumús

Hráefni

Sætar kartöflur, 1,2 kg

Smjör, 50 g

Hlynsíróp, 0,5 dl

Rjómi eða nýmjólk, 60-90 ml

Aðferð

Skrælið sætar kartöflur og setjið í pott með vatni og ríflegu magni af salti. Náið upp suðu, lækkið svo hitann aðeins svo það kraumi hæfilega í vatninu. Sjóðið kartöflurnar í 30 mín eða þar til þær eru orðnar mjúkar.

Hellið úr pottinum í sigti og leyfið kartöflunum að gufa í um 10 mín í sigtinu.

Setjið kartöflurnar í skál ásamt smjöri og hlynsírópi. Notið handþeytara til þess að mauka kartöflurnar og bætið við mjólk eða rjóma þar til áferðin er orðin silkimjúk. Smakkið til með salti.

 

Fennel, epla og rósakálssalat

Hráefni

Fennel, 1 stk

Epli grænt, ½ stk

Rósakál, 200 g

Sýrður rjómi 10%, 1 msk

Majónes, 1 msk

Dijon sinnep, 1 tsk

Hunang, 1 tsk

Eplaedik, 1 tsk

Trönuber þurrkuð, 40 g

Valhnetur, 50 g

 

Aðferð

Sneiðið fennel, rósakál og epli mjög þunnt, helst með mandolíni (farið varlega). Setjið í skál með sýrðum rjóma, majónesi, sinnepi, hunangi og ediki. Blandið vel saman og smakkið til með salti.

Vínó mælir með: Willm Pinot Gris Reserve með þessum rétti.

Uppskrift: Matur & Myndir