Himneskt humar pasta með ristuðum pankó raspi

Fyrir 3 – 4

Hráefni

Humar, 450 g

Spaghetti, 300 g

Laukur, 100 g

Hvítlaukur, 3 rif

Sítróna, 1 stk

Tómatar í dós, 400 g

Tómatpúrra, 30 ml

Ítalskt sjávarréttakrydd, 1 msk / Pottagaldrar

Hvítvín, 1 dl

Rjómi, 0,5 dl

Pankó brauðraspur, 1 dl

Fiskiteningur, 1/2 stk.

Tómat & jurtateningur, 1/2 stk / Kallo

Parmesan, 30 g

Steinselja, 20 g

Aðferð:

 

Afþýðið og þerrið humar. Hreinsið skítröndina frá ef þarf.

Setjið ríflegt magn af vatni í pott með smá salti og náið upp suðu.

Ristið pankó brauðrasp á heitri pönnu með smá olíu þar til raspurinn er farinn að taka gylltan lit. Pressið hvítlauksrif saman við og ristið áfram í stutta stund þar til allur raspurinn er fallega gyllltur en hrærið vel í á meðan svo ekkert brenni. Smakkið til með salti.

Saxið lauk nokkuð smátt.

Steikið humarinn upp úr smjöri og 1 pressuðu hvítlauksrifi í um 2-3 mín eða þar til hann er rétt svo eldaður í gegn. Færið humarinn á disk og hyljið með álpappír.

Hitið smá olíu í steypujárnspotti eða stórri pönnu og steikið saxaðan lauk við miðlungshita þar til hann er glær og mjúkur. Pressið hvítlauksrif í pottinn og steikið áfram í 1 mín.

Bætið tómatpúrru út í pottinn og steikið í nokkrar mín.

Hækkið hitann á pottinum og bætið hvítvíni út í. Látið vínið sjóða niður um helming.

Kremjið tómatana á milli fingra og bætið út í pottinn ásamt vökvanum úr dósinni. Bætið rjóma, ítölsku sjávarréttakryddi, 1/2 fiskitening og 1/2 tómat & jurtatening út í pottinn. Látið sósuna malla undir loki á meðan spaghetti er soðið.

Sjóðið spaghetti eftir leiðbeiningum á pakka.

Saxið steinselju smátt og rífið helminginn af parmesan ostinum saman við sósuna og bætið við smjörklípu. Smakkið til með salti ef þarf.

Sigtið vatnið frá spaghettíinu og bætið út í pottinn og veltið upp úr sósunni.

Blandið humrinum ásamt vökvanum af disknum og steinselju saman við spaghettíið og sósuna í pottinum og rífið restina af parmesan ostinum yfir.

Rífið sítrónubörk yfir réttinn (varist að taka hvíta undirlagið með) og berið fram með ristuðum pankó og góðu brauði.

Vinó mælir með: Willm Riesling Reserve með þessum rétt.

Uppskrift: Matur og Myndir