Nautalund með sveppasósu, bökuðum gulrótum og hvítlauks-kartöflumús
Fyrir 4
Hráefni
Nautalund, 4x 200 g steikur
Kartöflur, 1 kg (Premier)
Hvítlaukur, 4 stór rif
Sveppir, 250 g
Skalottlaukur, 40 g
Fersk timian, 2 msk saxað
Rjómi, 350 ml
Rauðvín, 150 ml
Nautateningur, 1 stk
Gulrætur, 400 g
Aðferð:
- Vefjið 3 hvítlauksrifum inn í álpappír með skvettu af ólífuolíu og smá salti. Skerið gulrætur í bita og veltið upp úr olíu, salti og 1 msk söxuðu timian. Setjið gulrætur og innpakaða hvítlaukinn í eldfast mót og bakið í miðjum ofni í 30-35 mín.
- Sneiðið sveppi og saxið skalottlauk smátt. Hitið smá olíu á pönnu ásamt 2 msk af smjöri og steikið sveppi þar til þeir hafa losað úr sér mesta vökvann. Bætið skalottlauk út á pönnuna ásamt 1 msk af söxuðu timian og steikið áfram þar til laukurinn mýkist. Pressið hvítlauk út á pönnuna og steikið þar til hvítlaukurinn fer að ilma. Smakkið til með salti og færið svo allt yfir í skál og geymið til hliðar. Þurrkið aðeins úr pönnunni.
- Setjið kartöflur í pott með vatni og svolitlu salti og náið upp suðu. Látið krauma þar til kartöflurnar eru mjúkar í gegn. Hellið vatninu frá og skrælið kartöflurnar. Pressið kartöflurnar með kartöflupressu eða stappið með kartöflustappara út í pottinn sem þær voru soðnar í. Slökkvið á hitanum og geymið undir loki á meðan unnið er í öðru.
- Hitið 1 msk af olíu ásamt klípu af smjöri við frekar háan hita á pönnu og steikið steikurnar í 3,5 -4,5 mín (fer eftir þykkt) á hvorri hlið fyrir medium rare steikingu. Takið kjötið af pönnunni og geymið á disk til hliðar.
- Bætið rauðvíni út á pönnuna og skafið úr botni pönnunar á meðan rauðvínið sýður niður um helming. Bætið 2,5 dl af rjóma út á pönnuna ásamt nautatening og látið malla í smástund þar til sósan fer að þykkjast. Bætið sveppa/skalottlaukblöndunni út í sósuna ásamt smjörklípu og látið malla í smástund. Bætið kjötinu út á pönnuna ásamt vökvanum af disknum og takið af hitanum.
- Pressið bakaða hvítlaukinn saman við kartöflurnar í pottinum og stillið á miðlungshita. Hrærið 50 g af smjöri saman við kartöflurnar ásamt 1 dl af rjóma. Smakkið til með salti og berið fram þegar kartöflurnar eru orðnar nægilega heitar.