Ómótstæðilegt kínóa salat með grilluðum risarækjum, mangó og lárperu

Fyrir 4

Hráefni

Risarækjur, 600 g

Tandoori masala, 20 ml / Kryddhúsið

Hvítlaukur, 2-3 rif

Langir grillpinnar, 5-6 stk

Kínóa, 250 ml

Piccalo tómatar, 200 g

Lárpera, 2 stk

Stórt mangó, 1 stk

Klettasalat, 60 g

Rauðlaukur, 1 stk

Basilíka, 10 g

Steinselja, 10 g

Kóríander, 10 g

Límóna, 1 stk

Hunang, 2 msk

Ólífuolía, 60 ml

Ristuð og söltuð graskersfræ, 50 g

Aðferð

Leggið grillpinnana í vatn svo þeir brenni síður á grillinu.

Afþýðið rækjur og þerrið. Setjið í skál ásamt tandoori masala, ólífuolíu og pressið hvítlauksrif saman við. Blandið vel saman og látið marinerast í 30 mín. Saltið rækjurnar eftir smekk áður en þær eru þræddar á grillpinna.

Setjið 500 ml af vatni í lítinn pott ásamt svolitlu salti og náið upp suðu. Bætið kínóa út í pottinn, lækkið hitann svo það rétt kraumi í vatninu og sjóðið kínóa undir loki í 15-18 mín. Takið af hitanum og látið standa undir loki í nokkrar mín. Færið svo í stóra skál og látið kólna.

Skerið lárperu, tómata og mangó í bita. Sneiðið rauðlauk eftir smekk í strimla. Saxið kryddjurtir. Bætið út í skálina með kínóa.

Rífið börk af límónu saman við hunang og 60 ml af ólífuolíu. Kreistið sirka 2 msk af límónusafa saman við hunangið og olíuna og pískið vel saman. Hrærið saman við salatið.

Grillið rækjurnar við háan hita í um 2-3 mín á hvorri hlið.

Bætið rækjum, graskersfræjum og klettasalati út í skálina og blandið vel saman. Smakkið til með salti og kreistið að lokum meiri límónusafa saman við eftir smekk.

Vinó mælir með Muga með þessum rétti.

Uppskrift: Matur og myndir