Risotto með stökku chorizo og grænum baunum
Fyrir 4
Hráefni
12 dl vatn
3 msk grænmetiskraftur frá Oscar
4 dl arborio grjón
2 msk smjör
1 laukur
2-3 hvítlauksrif
1 dl hvítvín, ég notaði Ramon Roqueta Macabeo Chardonnay
Salt og pipar
3 dl litlar grænar baunir, frosnar
200 g chorizo
1-2 dl ferskur parmigiano reggiano + meira til að bera fram
Fersk steinselja eða fersk myntulauf
Aðferð:
Hellið vatni í pott og hitið. Bætið grænmetiskraftinum út í og hrærið saman við. Haldið grænmetissoðinu heitu á vægum hita.
Skerið laukinn smátt og steikið á pönnu upp úr smjöri.
Pressið hvítlaukinn út í og hellið arborio grjónunum saman við og hrærið.
Þegar grjónin eru orðin smá glær á endunum hellið þá hvítvíninu út í og hrærið saman við. Þau eru fljót að drekka í sig hvítvínið.
Hellið því næst 1-2 dl af grænmetissoði út í og hrærið. Þegar grjónin eru búin að drekka í sig soðið þá hellið þið aftur 1-2 dl af soði út í og hrærið. Gerið þetta koll af kolli þangað til að soðið er búið og grjónin tilbúin. Þau eiga að vera mjúk og rjómakennd. Ég mæli með því að smakka og ef þau eru ennþá seig bætið þá meira vatni við. Saltið og piprið eftir smekk. Þarf þó ekki mikið salt þar sem parmesan osturinn og chorizo er svo saltað.
Dreifið svo rifnum parmigiano reggiano og grænum baunum út í og hrærið.
Takið filmuna utan af chorizo pylsunni og skerið smátt. Steikið upp úr smá ólífuolíu í nokkrar mínútur eða þar til það er orðið stökkt.
Berið svo risottoið fram með stökku chorizo, meiri parmigiano reggiano og saxaðri steinselju eða myntulaufum. Nýbakað hvítlauksbrauð passar síðan sérlega vel með þessu.