Mjúkar saltkringlur með heitri ostasósu

Hráefni

Uppskrift gefur 14 saltkringlur

  • 350 ml volgt vatn
  • 1 þurrgerspoki
  • 1 msk. púðursykur
  • 1 tsk. salt
  • 30 g brætt smjör
  • 770 g hveiti
  • Sjávarsalt
  • 1,5 l vatn og 90 g matarsódi til suðu
  • Ostasósa

Aðferð

  1. Hrærið saman vatni, þurrgeri og púðursykri þar til gerið fer að freyða.
  2. Bætið þá salti og smjöri saman við og hveitinu í nokkrum skömmtum, hnoðið með króknum á hrærivélinni eða í höndunum í stórri skál.
  3. Mögulega þarf að setja aðeins minna/meira af hveitinu en best er að reyna að hafa deigið eins blautt í sér og hægt er, án þess þó að það klístrist við alla fingur/skál.
  4. Leyfið deiginu að hefast í skál sem búið er að pensla með matarolíu að innan í um 20 mínútur.
  5. Setjið á meðan vatn og matarsóda í pott og hitið að suðu ásamt því að hita ofninn í 200°C.
  6. Skiptið deiginu niður í 14 hluta, rúllið hvern út í jafna lengju sem er um 50 cm á lengd. Reynið að endurhnoða deigið sem minnst og halda í því loftinu því þá verða kringlurnar mýkri í sér.
  7. Takið jafnóðum hverja lengju, snúið upp á endana og mótið út henni kringlu. Leggið varlega í pottinn og sjóðið í um 20 sekúndur. Ég notaði kleinuspaða til að veiða þær upp úr og best er að hrista vatnið vel af þeim og leggja þær síðan á bökunarpappír á bökunarplötu.
  8. Stráið sjávarsalti yfir hverja kringlu og bakið í um 10-12 mínútur eða þar til þær verða vel gylltar. Ég kom 7 og 7 kringlum fyrir á sitthvorri plötunni.
  9. Berið fram með heitri ostasósu.

Vinó mælir með: Stella Artois , Leffe Brune & Hoegaarden með þessum rétt.

Uppskrift: Gotteri