Toskana – vettvangur lífsins lystisemda

Bara nafnið á þessu héraði í Vesturhluta Ítalíu fær mann til að dreyma um fagurgrænar og hæðóttar sveitir, síðdegishita undir heiðum himni og glas af ljúffengu Chianti-rauðvíni, oftar en ekki úr einkennisþrúgu héraðsins, Sangiovese. Í þessu umhverfi, sem er svo ríkt af náttúrugæðum, geta vart gerst annað en góðir hlutir enda er Toskana meðal annars vagga ítölsku Endurreisnarinnar. Héraðið er auðugt af hvers konar verðmætum í jörðu og þar á meðal er gnægð marmara í Versilia-hlutanum í Lucca. Engin furða að Michelangelo náði fantatökum á myndhöggvaralistinni; nóg var af efniviði til að æfa sig!

 

Gæði byggð á gamalli hefð

Vínmenning stendur á eldfornum grunni í Toskana. Etrúrar námu þar land, að því að talið er, á 8. öld fyrir Krist hófu þegar í stað vínviðarrækt enda blasti gróðursældin við þeim. Svæðið skóp sér með tímanum gott nafn fyrir gæði vínsins og Grísk skáld tala um öndvegisvínin frá Toskana í verkum frá þriðju öld. Víngerðin hélt velli í gegnum aldirnar, þrátt fyrir fall Rómarveldis og ýmis önnur áföll, og á 11. öld hófu einhverjir af kaupmönnum Flórens að sérhæfa sig í því að höndla með vín. Á 13. öld gerðu þeir svo með sér sérstakt félag, Arte dei Vinattieri. Þar með var sala og dreifing öndvegisvínanna frá Toskana tryggð.

 

Hæðirnar hjálpa til með vínið

Jarðvegurinn í Toskana er, merkilegt nokk, ekki sérstaklega hentugur til vínræktar og það er ástæða þess að vínbændur í héraðinu hafa löngum lagt áherslu á gæði við framleiðslu víns – ekki magn. En eins og framar greindi þá er landslagið í Toskana hæðótt og það hjálpar á móti slökum jarðvegi, ekki síst þegar Sangiovese-þrúgan er annars vegar. Hún plumar sig best þegar hún fær notið óhefts sólarljóss og í hlíðum Toskana er nóg af sól. Hæðirnar eru líka ástæður þess að þrúgurnar sem þar vaxa komast í snertingu við miklar sveiflur á hitastigi innan sama sólarhringsins og það stuðlar að góðu jafnvægi sætu og sýrni í þrúgunum.

 

Tómatur, basilíka og hvítlaukur

Of langt mál er að telja hér upp allan girnilega matinn sem einkennir þetta sólríka og fallega hérað en hér skal engu að síður gefin ein, einföld uppskrift að skotheldu snarli sem á alltaf við, og er unaðslegt með glasi af rauðvíni frá Toskana. Bruschetta er sneið af snittubrauði með fersku tómatmauki og það er engu logið um það að í þessum smárétti er sólskin að finna og lífsgleði Toskana er í hverjum bita. Eitt að lokum – í staðinn fyrir hvítt snittubrauð má lyfta réttinum upp með því að nota millidökkt hleifabrauð og skera þá sneiðarnar í tvennt. Þetta er gráupplagt til að nýta brauð sem komið er dag fram yfir síðasta dag; það virkar einna best.

 

Bruschetta á hleifabrauði fyrir 2

 

brucetta

 

 

2 vænar sneiðar af hleifabrauði

3 plómutómatar

1 stór hvítlauksgeiri

7-8 lauf af ferskri basilíku

1 matskeið af góðri extra virgin ólífuolíu

skvetta af balsamic ediki (ath – ekki sýróp!)

Flögusalt

Nýmalaður svartur pipar

 

 

 

 

Hreinsið fræ og vökva úr plómutómötunum og saxið þá niður. Saxið sömuleiðis basilíkulaufin og hrærið saman við. Skerið hvítlauksgeirann í tvennt og fínsaxið helming út í tómat-basilmaukið. Bætið við matskeið af olíunni og balsamic-edikinu, og saltið loks og piprið eftir smekk.

 

Skerið hvora brauðsneið í tvennt og ristið í brauðrist þangað til yfirborðið er sæmilega hart. Nuddið yfirborð sneiðanna öðru megin með helmingnum af hvítlauksgeiranum sem ekki fór í tómatmaukið, skvettið á svolítilli olíu og myljið klípu af salti yfir. Dreifið svo tómatmaukinu yfir.

 

Ef um forrétt er að ræða í matarboði er upplagt að skreyta sneiðarnar með heilu laufi af basilíku ofan á tómatmaukið. Hér að neðan eru svo nokkrar vel valdar tillögur að vínum frá Toskana sem fara vel með þessum smárétti – og raunar með öllum góðum mat. Buon appetito!

 

Hvernig væri að prófa?

 

 

Melini Chianti Pian del Masso 2014

 Melini pian del masso

Passar vel með: Pizza, pasta, kjúklingur og tapas.

Lýsing: Rúbínrautt. Létt meðalfylling, ósætt, sýruríkt, lítil tannín. Hindber, blómlegt, lyng.

Verð: 1.999 kr

 

 

Melini Chianti Governo All‘uso Toscano 2013

 melini-governo-alluso-toscano

Passar vel með: Ítalskar pylsur, kjúklingur, svínakjöt, pasta og tapas.

Lýsing: Kirsuberjarautt. Þétt meðalfylling, ósætt, fersk sýra, þétt tannín. Kirsuber, lyng, lauf.

Verð: 2.299 kr

 

 

Dievole Chianti Classico 2014

dievole-chianti-classico-2014

Passar vel með: Lambakjöt, grillkjöt, ostar og pasta.

Lýsing: Kirsuberjarautt. Létt meðalfylling, ósætt, fersk sýra, þurrkandi tannín. Rauð ber, kirsuber, lyng.

Verð: 3.499 kr.

 

 

Share Post