Ómótstæðilegt Pad thai með risarækjum
Fyrir 3
Hráefni
Risarækjur, 300 g
Hrísgrjónanúðlur, 200 g
Egg, 2 stk
Fiskisósa, 4 msk
Tamarind paste, 3 msk / Fæst í Fiska á Nýbýlavegi
Púðursykur, 5 msk
Hrísgrjónaedik, 1 msk
Límónusafi, 1 msk
Srirachasósa, 1 msk
Paprikuduft, 1 msk
Salthnetur, 80 ml
Baunaspírur, 60 g
Laukur, ½ lítill
Hvítlaukur, 3 rif
Vorlaukur, 2 stk
Kóríander, 8 g
Agúrka, 50 g
Límóna, 1 stk
Aðferð
- Útbúið hrísgrjónanúðlur samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum.
- Þerrið rækjur og setjið í skál með smá skvettu af olíu og 1 pressuðu hvítlauksrifi. Látið marinerast á meðan unnið er í öðru.
- Hrærið saman fiskisósu, tamarind paste, púðursykur, hrísgrjónaedik, límónusafa, srirachasósu og paprikuduft.
- Sneiðið hvíta og ljósgræna partinn af vorlauknum í sneiðar.
- Sneiðið dekkri græna partinn af vorlauknum í þunnar sneiðar og geymið til hliðar til þess að strá yfir réttinn þegar hann er tilbúinn.
- Pískið eggin saman í skál. Saxið salthnetur og kóríander og sneiðið lauk í þunna strimla. Skerið gúrkur í sneiðar.
- Hitið olíu á stórri pönnu við miðlungshita. Bætið lauk og ljósa partinum af vorlauknum út á pönnuna og steikið þar til laukurinn er farinn að mýkjast. Pressið 2 hvítlauksrif út á pönunna og steikið áfram í um 1 mín.
- Hækkið hitann á pönnunni. Bætið rækjum út á pönnuna og steikið í um 2 mín á hvorri hlið.
- Færið allt til hliðar á pönnunni og hellið eggjunum á auða part pönnunar. Bíðið í smástund þar til eggin eru farin að þéttast og hrærið þá í þeim til að brjóta þau í sundur og hrærið þeim svo vandlega saman við hin hráefnin á pönnunni.
- Bætið ¾ af baunaspírunum út á pönnuna ásamt núðlunum og sósunni. Veltið núðlunum upp úr sósunni í stutta stund þar til allt hefur samlagast og núðlurnar eru vel huldar sósu. Hrærið helmingnum af kóríander, vorlauk og salthnetunum saman við og smakkið réttinn til með salti.
- Toppið réttinn með restinni af salthnetunum, kóríander og vorlauk. Berið fram með límónubátum, gúrkusneiðum og restinni af baunaspírunum til hliðar.