Adobe Reserva Chardonnay 2019

 

 

Víngarðurinn segir;

„Ég er ekki í vafa um að flest ykkar hafa prófað einhver vín úr Adobe-línunni frá víngerðinni Santa Emiliana í Chile, enda eru þau fjölbreytt, lífræn og á afar frambærilegu verði. Þessi splunkunýi Chardonnay er engin undantekning, því hér er á ferðinni ljúft, heilbrigt og ávaxtaríkt hvítvín sem ætti að gleðja alla.

Það hefur strágylltan lit og angan sem minnir á epli eða eplaböku, græn kryddgrös, sætan sítrónubúðing, ferska peru og gamla góða strokleðrið. Það er svo meðalbragðmikið og með afar ferska sýru, sem gefur því gott jafnvægi á móti svona sólþroskuðum og sætkenndum ávexti, svo það verður vægast sagt mjög auðdrekkanlegt. Þarna eru svo sítrónubúðingur, þroskuð pera, eplabaka, græn kryddgrös og vottar einnig fyrir austurlenskum ávöxtum einsog ananas. Þótt þetta sé óeikað og ósnobbað Chardonnay-vín er það ljúffengt, vel gert og í góðu jafnvægi. Hafið með allskonar forréttum, bragðmeiri fiskréttum, ljósu fuglakjöti og svo er það gott líka svona eitt og sér á sólpallinum.

Verð kr. 2.099.- Frábær kaup. “

Post Tags
Share Post