Amalaya Tinto de Corte 2015
Vinotek segir;
Vínin frá Amalaya koma frá háfjallahéraðinu Salta nyrst í Argentínu en þar er að finna þær ekrur sem eru hvað hæst yfir sjávarmáli í veröldinni. Vínhúsið er í eigu Hess og með þeím nútímalegri og alþjóðlegustu á svæðinu.Tinto de Corte er blanda úr þremur þrúgum, fyrst og fremst Malbec en einnig örlitlu af Tannat og Syrah. Ungt með smá bláma í lit, ávöxturinn dökkur, þarna eru plómur og berjagrautur, en einnig fersk angan af blómum og jörð, töluvert kryddað. Mild tannín í munni, þægilega mjúkt með ferskum og fínum ávexti.
2.499 krónur. Frábær kaup á þessu verði. Með lambi og nauti.
Víngarðurinn segir;
Vínin frá hinni argentísku víngerð Amalaya voru á boðstólnum hérna fyrir nokkrum árum og ég verð að segja að það er gaman að þau skuli fást hérna á ný. Amalaya tilheyrir Hess-samsteypunni, kennd við Donald Hess sem stofnsetti hana í Kaliforníu á síðari hluta áttunda áratugsins og Amalaya er annað tveggja argentískra vína sem frá honum kemur (hitt er Colomé) og það er upprunið í Calchaqui-dalnum í Salta en þarna eru einhverjir hæstu víngarðar yfir sjávarmáli í heiminum.
Það er samsett úr þrúgunum Malbec, Tannat og Syrah og hefur þéttan plómurauðan lit. Það er rétt ríflega meðalopið í nefinu með ilm sem minnir á sultuð aðalbláber, Créme de Cassis, kirsuber, plómu, apótekaralakkrís, balsam og eitthvað í áttina að gráðaosti og sveitalegum mykjutónum. Í munni er það þurrt með góða sýru og þétt tannín. Það hefur keim af sultuðum kræki-, bróm- og aðalbláberjum, plómu, lakkrís, balsam, kirsuberjum og kryddjurtum. Vandað, þéttofið og matarvænt rauðvín sem er fínt með allskonar dökku kjöti (td grilluðu), hægelduðum pottréttum og krydduðum Miðjarðarhafsmat.
Verð kr. 2.499.- Mjög góð kaup.