Camino Dominio Romano 2015
Vinotek segir;
Dominio Romano er lítið vínhús í Ribera del Duero sem Cusine-fjölskyldan hefur verið að byggja upp á undanförnum árum. Sú ágæta fjölskylda er þekktust fyrir hið frábæra fjölskylduvínhús Pares Balta í Penedes suður af Barcelona sem er með allra bestu vínhúsum þess hluta Spánar. Þau hafa hins vegar einnig verið að færa út kvíarnar, annars vegar til Priorat og síðan til Ribera eins og áður var getið. Líkt og heimafyrir er áherslan á sem náttúrulegasta ræktun vínanna og Dominio Romano vínin eru lífrænt ræktuð. Camino er stórt og mikið vín fyrir sinn verðflokk, en það er ekki bara kraftmikið heldur margslungið og flókið. Það er ennþá mjög ungt og liturinn dökkur, fjólublár. Í angan vínsins fyrst svört ber, jafnt krækiber sem sólber, nokkuð þroskuð krydduð, þarna leynast líka tóbakslauf, krydd og vínið hefur nokkuð míneralískt yfirbragð, jafnt í nefi sem munni góðan ferskleika, kröftug mjúk tannín.
2.999 krónur. Frábær kaup, stórkostlegt vín á þessu verði. Með grilluðu lambi og nauti.