Chateau la Croizille 2010
Vintek segir;
Chateau la Croizille er vín sem er frábært að sjá í vínbúðunum. Ekki bara vegna þess að það er alltaf ánægjulegt að fá flottan Saint-Emilion Grand Cru heldur vegna þess að það hefur ekki verið mikið um vín síðasta áratuginn sem rata hingað til lands frá Bordeaux sem að endurspegla nýjustu strauma og stefnur. Síðustu sem að maður man eftir voru vínin frá Jonathan Malthus, einnig þau frá Saint-Emilion. La Croizille er lítið vínhús í Saint-Emilion sem að rataði í eigu hinn flæmsku De Schepper fjölskyldunnar árið 1996 en hefur nokkuð lengi verið viðloðandi víngerð í Bordeau. Croizille er það sem kalla mætti „bílskúrsframleiðandi“ eða garagiste, vínekrurnar um fimm hektarar og framleiðslan árlega einungis um tólf þúsund flöskur. Það var ekki þekkt áður en De Schepper keypti og tók víngerðina í gegn, en nágrannarnir eru stórir, s.s. Troplong-Mondot, La Mondotte og Tertre-Roteboeuf og gáfu vísbendingu um möguleikana. Þeta er virkilega stórt vín og það er ennþá ekki mikið að gefa af sér í fyrstu, lokað, agressívt, lakk í nefi, öskrar á mann, láttu mig í friði. En ef það fær að vakna í nokkrar klukkustundir í karöflu fer það að gefa meira af sér. Dökk sólber, mosi, vanilla í nefi. Líka þroskaðar plómur, þurrkuð krydd, dökkt súkkulaði. Tannín eru mikil um sig, orðin mjúk og renna vel saman við þungan og þykkan ávöxtinn, langt. 12.490 krónur. Gefið ykkur tíma með þetta vín. Má vel geyma í 5-10 ár.