Chateau Lamothe Vincent Héritage 2015
Vinotek segir;
Það er engin tilviljun að um allan heim séu rauðvínsþrúgurnar Cabernet Sauvignon og Merlot í hávegum hafðar. Það er nefnilega sama hvernig á hlutina er litið, einhver bestu rauðvín veraldar eru framleidd í Bordeaux og þau eru einmitt framleidd úr þessum tveimur þrúgum. Bordeaux er hins vegar stórt hérað og framleiðir óhemju magn af víni, meira en mörg stór og þekkt víngerðarlönd. Vínin eru líka ólík að gæðum. A toppnum tróna Grand Cru-húsin og þau vín eru mörg hver á síðustu árum orðin það sjúklega dýr að þau eru vart á færi venjulegs vínáhugafólks nema sem algjör sparivín. Sem betur fer er hins vegar enn hægt að finna alveg hreint frábærlega vel gerð Bordeaux-vín sem kosta lítin pening. Vínin frá Lamothe-Vincent hafa löngum verið í þeim hópi og þetta vín frá 2015 árgagnum er eitthvað það besta, ef ekki það besta sem við höfum smakkað frá þeim. Þetta er alvöru vín, dökkt og djúpt á lit með seyðandi, þroskuðum sólberjaávexti, bláberjum, örlitlu vanillu og lakkrís. Vínið hefur mikla fyllingu, það er langt og tannín eru kröftug og þétt. 2.499 krónur. Frábært vín og frábær kaup, þessi árgangur fær hálfa auka stjörnu fyrir hlutfall verðs og gæða. Vín með lambi, önd og jafnvel hreindýri.