Chateau Villa Bel Air Blanc 2015
Vinótek segir;
Bordeaux er eitt helsta víngerðarsvæði Frakklands og raunar heimsins. Ekki einungis vegna þess að það er framleitt mikið af víni, svona álíka mikið og í Ástralíu, heldur fyrst og fremst vegna þess að þarna eru framleidd mörg af bestu rauðvínum veraldar. Bordeaux skiptist í mörg undirsvæði og eitt af þeim er Graves suður af sjálfri Bordeaux-borg.
Syðst í Graves er að finna vínhúsið Chateau Villa Bel-Air en það hefur verið í eigu Cazes-fjölskyldunnar frá 1988. Hún er ein helsta víngerðarfjölskylda Bordeaux og teymið frá fjölskylduvínhúsinu Chateau Lynch-Bages í Pauillac sá um að umbylta ekrunu og vínræktinni og sömuleiðis hefur víngerðarteymið frá Lynch séð um víngerðina í Bel-Air. Við fjölluðum nýlega um hið stórgóða rauðvín frá Bel Air og hér er það hvítvínið en Graves er einmitt það svæði Bordeaux þar sem hvítvínin koma næst því að standa jafnfætis rauðvínunum (ef við undanskiljum sætvínin frá Sauternes).
Þetta er vín sem er dæmigert fyrir góð hvít Bordeaux-vín, minnir jafnvel á vínin frá Pessac. Fölgult með þykkri angan af þroskuðum ferskjum, melónum, sítrónuberki og hitabeltisávöxtum á borð við ástaraldin sem rennur saman við sæta eikina sem bætir við vanillu og reyk, vínið er þykkt í munni, langt og elegant, góð sýra.