Conde de Haro Brut Reserva 2018
Víngarðurinn segir;
Það er alltaf pláss í mínum ísskáp fyrir góð Cava-freyðivín og ég hef trú á að ég eigi eftir að versla nokkrar svona í framtíðinni, enda er hér á ferðinni Cava í algerum sérflokki og er ekki bara góður sumardrykkur heldur alhliða stemningsvín fyrir allar árstíðir.
Það er hið margrómaða víngerðarhús Muga, sem ber ábyrgðina á þessu frábæra freyðivíni undir nafninu Cande de Haro og er það blandað úr þrúgunum Malvasia og Viura þótt hlutföllin séu reyndar 90/10. Margir gera sér ekki vel grein fyrir því að Cava má framleiða víða á Spáni þótt megnið af framleiðslunni sé í Katalóníu. Rioja hefur meðal annars leyfi til að gera freyðivín með hefðbundinni flöskugerjun og kalla það Cava og nokkur önnur svæði líka, Valencia svo dæmi sé tekið þótt sú framleiðsla sé ekki stór í sniðum og vínin varla sjáanleg utan héraðsins.
Þetta er árgangs-Cava, sem vissulega er framleitt af betri víngerðarhúsum, en er sannarlega undantekningin fremur en reglan. Það er sinugyllt að lit og býr yfir meðalopinni og dæmigerðri angan þar sem fínlegir gerjunartónar eru nokkuð áberandi í upphafi og minna á bakarí, vínarbrauð, flatkökur og vanillubúðing en þarna eru líka soðin epli, sítróna, steinaávextir og feitari glefsur sem minna á vax. Það er svo nokkuð bragðmikið, töluvert þurrt og sýruríkt með fíngerðar loftbólur og komið með þroskaða tóna eftir fjögur ár í flösku. Þarna má rekast á sítrónu, greipaldin, appelsínumarmelaði, soðin epli, flatköku, vínarbrauð, vanillubúðing og brenndan sykur. Virkilega flókið og fágað freyðivín með langt og glæsilegt bragð. Þessi þrúgusamsetning er vissulega óvenjuleg og það skilar sér í persónulegu og mögnuðu frussi. Frábært sem fordrykkur og gengur einnig með nokkuð bragðmiklum fiskréttum, forréttum og puttamat.
Verð kr. 3.499- Frábær kaup.