Crasto Superior Syrah 2018
Vinotek segir;
Quinta do Crasto í Douro-dalnum í Portúgal er eitt þeirra vínhúsa sem hefur gert hvað mest fyrir ímynd venjulegra rauðvína frá þessu héraði sem margir tengja enn fyrst og fremst við portvínsframleiðslu. Fyrir nokkrum árum náði eitt af rauðvínum hússins þriðja sæti á árlegum topp 100 lista Wine Specatator sem var og er það hæsta sem vín frá Portúgal (sem ekki var portvín) hefur nokkurn tímann náð. Þrúgurnar í þessu víni eru frá búgarðinum Quinta da Cabreira í Douro Superior (Efri-Douro), sem er eitt þriggja undirsvæða Douro dalsins. Ólíkt flestum rauðvínum Douro er hér notuð frönsk þrúga, nánar tiltekið Syrah, sem nokkur önnur hús hafa þó einnig gert tilraunir með t.d. Quinta do Noval og Romaneira. Vínið er þar af leiðandi ekki í DO-flokkuninni heldur flokkað sem Vinho Regional Duriense.
Þetta er algjörlega magnað vín í sínum verðflokki. Liturinn er djúpur og nær ógegnsær, dimmrauður. Í nefi mætir mannir fyrst sætur viður, eik en líka hitabeltisharðviður á borð við sedrus. Á bak við viðinn djúpur og þykkur ávöxtur, þroskuð sólber, kirsuber og plómur, dökkt súkkulaði, kryddað. Með smá öndun rennur viðurinn saman við ávöxtinn, í þétta og flotta heild, vínið er kröftugt, strúktúr þéttur, tannín mjúk, heitt og piprað í lokin. Umhellið gjarnan nokkrum klukkustundum áður en borið fram. 3.999 krónur. Algjörlega frábær kaup. Með nautakjöti, önd eða mildri villibráð.