Cune Gran Reserva 2013
Víngarðurinn segir;
„Eitt af því sem er fylgisfiskur hins nýja Rioja-stíls er að margar víngerðir hafa lítinn áhuga á að gera Gran Reserva-vín lengur. Fyrir því eru auðvitað nokkrar ástæður, aðalllega þó að krafan um fersk og splunkuný vín gerir ekki ráð fyrir að þroska vín í tvö ár í eikartunnum og amk annan eins tíma í flöskum áður en vínin eru sett á markað. Auk þess er það dýrt að geyma uppskeruna í mörg ár áður en hún er seld og alvöru bissnesmenn nú á dögum vilja helst selja vöruna áður en hún er tilbúin. Það er því alltaf gaman að fá í hendurnar Gran Reserva vín og þetta hér frá Cune er barasta býsna gott.
Það er að lang stærstum hluta til úr Tempranillo og þroskað í blöndu af frönskum og bandarískum eikartunnum og hefur ríflega meðaldjúpan, kirsuberjarauðan lit. Það er svo meðalopið í nefinu (ég mæli eiginlega með því að umhella því til að láta súrefnið vinna með sér) með þroskaða og nokkuð flókna angan sem er dæmigerð og ljúf. Þarna eru kirsuber, Mon Chéri-molar, brúnn banani, brenndur sykur, Bounty-súkkulaði, balsam, þurrkaðir ávextir, sultuð aðalbláber, kakó, kóngabrjóstsykur og kremaðir vanillutónar úr eikinni. Þetta er flókinn og afar skemmtilegur ilmur sem gaman er að velta fram og aftur í glasinu.
Það er svo ríflega meðalbragðmikið, þétt með góða sýru og póleruð tannín. Stórt en fínlegt og hefur langvarandi bragð. Þarna má greina rauð ber, sultuð bláber, kakó og súkkulaðitóna, balsam, kókos, þurrkaða ávexti og mjúka eik. Virkilega flott rauðvín sem fer vel með ykkar besta lambakjöti eða eiginlega hvaða rauða kjöti sem er. Hin opinbera útgáfa er að árgangurinn 2013 hafi ekki verið nema í meðallagi en þetta vín fær fullt hús fyrir ilminn og nálgast að fá fullt hús fyrir bragðið líka. Niðurstaðan er dæmigert og margslungið Rioja-vín sem ætti að höfða til allra. Verð kr. 3.499.- Frábær kaup. “