Emiliana Salvaje 2020
Vínotek segir;
Salvaje er ágætis náttúruvín frá Emiliana í Chile sem um árabil hefur verið leiðandi í lífrænni ræktun. Þrúgurnar, sem eru hin rauða Syrah og 7% af hvítu Roussanne, eru ræktaðar í Casablanca-dalnum og víngerðin á sér stað með náttúrulegum gerlum og vínið er stabilíserað með náttúrulegum aðferðum en ekki súlfíti. Uppskeran fyrir 2020 árganginn fór fram í byrjun þess árs og vínið því enn mjög ungt, nánast eins og að smakka tanksýni í víngerð, það er dimmblátt og berjaávöxtur er ríkjandi í nefinu, hreinn og tær, sætur, nær sultaður bláberja og brómberjasafi, vottur af blómum. Ágætt að bera það fram ekki of heitt, kannski 16-18 gráður. 2.999 krónur. Frábær kaup. Með ostum.