Amalaya Tinto de Corte 2016
Víngarðurinn segir;
Það er fjölskylda Donald Hess (sem gerir vín víða um heim, meðal annars í Kaliforníu og Suður-Afríku) sem gerir þetta vín í Calchqui í Argentínu og blandar þar saman þremur frönskum þrúgum sem sennilega hafa náð meiri útbreiðslu í Suðurálfu en í kringum Bordeaux, þaðan sem þær koma upprunalega. Þetta eru þrúgurnar Malbec, Tannat og Petit Verdot og útkoman er nokkuð kraftmikil og dæmigerð fyrir rauðvín frá þessum slóðum.
Það hefur ríflega meðaldjúpan, plómurauðan lit og kannturinn er vel þéttur. Það er meðalopið með ilm sem minnir á sultuð kræki-, blá- og brómber ásamt kirsuberjum í spritti, súkkulaði, plómum, tóbaki, málmi, kryddjurtum og einhverskonar reykelsis- eða reyktum tónum. Það er svo nokkuð bragðmikið með góða sýru en undirliggjandi þroskaða ávaxtasætu og ágæta endingu. Tannínin eru furðu mjúk (sé til þess tekið að þarna eru líklega þrjár af tannínskustu þrúgum frá Suð-Vesturhluta Frakklands samankomnar) og keimurinn leiðir hugan að sultuðum bláberjum, krækiberju, plómum, Mon Chéri-molum, kryddjurtum og dökku súkkulaði. Þetta er prýðilegt argentínskt rauðvín sem munar litlu að fái plúsinn í viðbót við stjörnurnar fjórar. Það er aðgengilegt og hefur fína byggingu þrátt fyrir þennan sætkennda grunn sem ég veit að mörgum líkar. Hafið með allskyns kjötréttum, pasta, pottréttum, grillmat og jafnvel steikum.
Verð kr. 2.499.- Mjög góð kaup.