Hess Cabernet Sauvignon 2014
Vinotek segir;
North Coast er stórt og umfangsmikið víngerðarsvæði eða AVA norður af San Francisco í Kaliforníu en innan þess eru meðal annars þekkt héruð á borð við Napa, Sonoma, Mendocino og Lake. Þetta Cabernet Sauvignon-rauðvín frá Hess er vel gert Kaliforníuvín. Liturinn dökkur, í nefi heitur og sólbakaður ávöxtur, þroskuð sólber og bláber, mild eik í bland við ávöxtinn, smá kryddað, þarna er vanilla, mjúkt og þægilegt. 2.699 krónur. Frábær kaup. Með rauðu kjöti, gjarnan grilluðu.
Víngarðurinn segir;
Það er greinilegt að rauðvín og þá sérstaklega Cabernet Sauvignon er sterkari hlið Hess-grúppunnar, en um daginn fjallaði ég um Chardonnay-vínið frá þeim. Og þótt það fengi einnig fjórar stjörnur þá er þessi Cabernet betra og heilsteyptara vín og munar litlu að þá fái plúsinn að auki.
Það hefur meðaldjúpan fjólurauðan lit og meðalopna, dæmigerða angan af sultuðum sólberjum, plómu, bláberjum, málmi, krömdu sólberjalaufi, hlaupnammi og vanillu. Sprittið er svolítið áberandi í upphafi en það rýkur fljótlega í burtu þegar vínið fær að anda stundarkorn.
Það hefur sætkenndan grunn í munni en fín sýra tryggir því ferskleikann sem nauðsynlegur er og mjúk tannín fylgja þessu víni svo úr hlaði. Það má greina þarna sólber, plómu, vanillu, bláber og hlaupnammi. Þétt (og þá sérstaklega í upphafi) og notendavænt rauðvín sem er fínt með lambi, nauti og eiginlega flestu rauðu kjöti, betri pastaréttum og grillmeti.
Verð kr. 2.699.- Mjög góð kaup.