Le Due Arbie Rosso Toscana
Víngarðurinn segir;
Þetta stórfína, toskanska rauðvín kemur úr herbúðum Dievole-víngerðarinnar sem, einsog fólk á að muna, tilheyrir fjölskyldu Alejandro Bulgheroni ásamt nokkrum öðrum. Rosso Toscana skilgreiningin er svokölluð IGT-skilgreining (Indicazione Geografica Tipica) og auðveldast er að skýra sem rauðvín, framleitt í Toskana sem inniheldur ekki 75% eða meira af Sangiovese (einsog þarf að vera til að hægt sé að skilgreina það sem DOP eða DOPG rétt einsog Chianti eða önnur álíka skilgreind víngerðarsvæði). Oftast er hér um að ræða blöndu af Sangiovese og öðrum þrúgum, oftar en ekki frönskum einsog Cabernet Sauvignon eða Merlot, en getur verið 100% Merlot, svo eitthvað dæmi sé tekið, svo framarlega að þrúgurnar komi frá víngörðum sem liggja innan þeirra landamæra sem dregin eru utanum víngerð í Toskana.
Le Due Arbie er einmitt blandað úr þrúgunum Sangiovese (70%) Merlot (20%), Cabernet Sauvignon (7%) og Cabernet Franc (3%). Það býr yfir meðaldjúpum, plómurauðum lit og hefur meðalopna angan þar sem greina má kirsuber, jarðarber, lakkrís, leður, krækiberjahlaup kryddjurtir og rykug steinefni. Það er svo meðalbragðmikið með góða og frísklega sýru, nokkuð fínleg tannín og fínasta jafvægi út í gegn sem skilar afar matarvænu og nokkuð upprunalegu víni sem er alls ekki langt frá Chianti í stíl og áferð. Þarna má finna kirsuber, sultuð krækiber, lakkrís, hindber og leirkennda steinefnatóna. Virkilega ítalskt og vel gert rauðvín sem fer vel með allskonar ítölskum mat, þó frekar kjötréttum einsog kjúkling, folaldi og nauti.
Verð kr. 2.699.- Frábær kaup.