Massolino Barbera D’Alba
Víngarðurinn segir;
Piemont er skilgreint víngerðarsvæði, að mestu austan og sunnan við borgina Tórínó sem flestir vínsnobbarar þekkja. Þarna eru gerð afar eftirsótt vín og þetta svæði á ýmislegt sameiginlegt með Búrgúnd, ekki síst að þarna er það aðallega ein rauð þrúga sem hefur borið frægð héraðsins útum víða veröld. Í Búrgúnd er það Pinot Noir en í Piemont er það auðvitað Nebbiolo sem fær hörðustu karlmenn til að tárfella og ríkari menn en mig til að taka upp kreditkortið. Barolo og Barbaresco frá réttum framleiðanda eru vín sem safnarar og atvinnusmakkarar sækjast eftir, en við hin, sem rétt náum lágmarsklaunum, fáum sjaldnast að gæða okkur á en getum stundum lesið um.
Okkur til huggunar þá er auðveldara að komast yfir ódýrari vín frá bestu framleiðendunum og margir þeirra gera stórkostleg vín sem eru ekki upprunar á einhverjum smábletti er snýr í suð-vestur og hefur rétta jarðveginn. Sum vín eru nefnilega blönduð af þrúgum frá stærra svæði eða eru gerð úr útbreiddustu þrúgu svæðisins: Barbera. Uppskeran af Barbera er nefnilega nánast tvöföld uppskeran af Nebbiolo og sem betur fer þá snobba mun færri fyrir henni, sumsé álíka fáir og snobba fyrir Gamay í Búrgúnd. Sem er happafengur fyrir okkur neytendur. Barbera getur nefnilega gefið af sér framúrskarandi vín þótt þau séu afar ólík Nebbiolo og þau eru að mörgu leiti mun heppilegri með fjölbreyttari mat. En einsog alltaf þá gera sumir betri vín en aðrir og einn af þeim allrabestu er Massolino og það er mikill happafengur fyrir okkur Íslendinga að nú skuli tvö vín frá honum vera fáanleg í einokunnarversluninni.
Massolino hefur um langt skeið verið einn af þeim framleiðendum sem taldir eru upp þegar listar yfir þá bestu í Piemont eru dregnir fram. Ár eftir ár eru topp-vínin frá honum að skora uppundir 100 punkta hjá rétta fólkinu og þær fáu flöskur sem gerðar eru, hverfa oní kjallara vínsafnara löngu áður en við venjulegir neytendur eigum þess kost að kaupa (ef við hefðum efni á). En sem betur fer þá gerir Massolino einnig ódýrari vín í meira magni og þessi vín eru sennilega bestu kaupin því gæðamunurinn á þeim og hinum dýrari er í engu samræmi við verðmuninn. Sumsé ekki eins mikill og þið haldið. Og þessi Barbera er alveg framúrskarandi.
Vínið býr yfir ríflega meðaldjúpum, fjólurauðum lit (Barbera er afar fjólublá þrúga) og hefur unga og frísklega angan af súrum kiruberjum, hindberjum, sprittlegnum plómum, marsipan, tjöru, beiskum möndlum og dökku súkkulaði. Þetta er býsna „fjólublá“ angan rétt einsog litur vínsins og það er nóg að reka nefið ofaní glasið til þess að munnvatnið spretti fram. Það er svo þurrt og fínlegt en býr yfir ákveðnum sprengikrafti með sinni ákveðnu sýru og fínkornóttu tannínum. Þarna má greina súr kirsuber, hindber, plómur, fjólur, marsipan, dökkt súkkulaði og kryddjurtir. Langt og fínlegra en mörg önnur vín úr Barbera sem þið kunnið að hafa smakkað í gegnum tíðina, nánast með fínleika Nebbiolo, sem segir manni hversu víngerðin hefur mikil áhrif á endanlega útkomu. Afar fjölhæft matarvín, gengur með allskonar mat bæði grófum og bragðmiklum jafnt og þeim fínlegri. Prófið það með hægelduðum nautakinnum eða Osso Buco.
Verð kr. 3.850.- Frábær kaup.