Muga Reserva 2017

 

 

Vínsíðurnar segja;

Muga víngerðin var stofnuð árið 1932 og er hún staðsett í gömlu járnbrautarstöðinni í Haro, Barrio de La Estación, og er hún ein af fáum víngerðum í Rioja, og reyndar á Spáni ef út í það er farið, sem er með tunnugerð á svæðinu sem framleiðir eikartunnurnar sem víngerðin notar til að þroska vín sín. Víngerðin er enn í dag í eigu sömu fjölskyldunnar og er það þriðja kynslóðin, systkinin Manu, Juan, Eduardo og Ana, sem hafa tekið við stjórnartaumana. Nánast allur ávöxtur sem fer í vínin frá Muga kemur frá vínekrum þeirra í Rioja Alta og er uppistaðan í þessu víni auðvitað Tempranillo ásamt dass af Garnacha og Graciano. Vínið fær svo að þroskast í heimagerðum eikartunnum víngerðarinnar í um 24 mánuði áður en það er filterað og látið þroskast í aðra 12 mánuði í flöskunni.

Vínið er dimmrúbínrautt á litinn með þokkalega opinn ilm sem er þó ekki alveg að sýna öll spil á hendi. Hins vegar koma þau flestt öll í ljós eftir stutta stund í glasi og það eru engin smá spil. Tunnan er áberandi í fyrstu með alla sína vanillu, kókos í bland við rauða ávexti eins og kirsuber og jarðarber en svo kemur yndislegur ilmur af fjólum, léttum kryddum, kryddjurtum, lakkrís, kakó og vott af kaffi í seinni bylgjunni. Allt saman pakkað saman á ótrúlega snyrtilegan máta. Algjör nammi ilmur. Það er meðal bragðmikið í munni með góðan ferskleika og afskaplega fínleg og mjúk tannín. Frábær bygging á þessu víni og aftur erum við að rekast á vandlega innpakkaðan ávöxt í bland við gríðarlega vandaða tunnutóna.

Okkar álit: Vandað vín frá A-Ö. Ávöxturinn til fyrirmyndar og eikarmeðferðin í sparifötunum. Stendur vel undir velgengni!

Verð 4.299 kr.

Post Tags
Share Post