Pagos de Galir Godello 2018
Víngarðurinn segir;
„Að mínu mati eru einhver bestu hvítvín sem fáanleg eru í íslenskum vínbúðum um þessar mundir frá Spáni. Eftir að hafa sannað fyrir umheiminum að spænsk víngerð geti boðið einhver best verðlögðu rauðvín heimsins þá held ég að það sé rétt að beina sjónum okkar að hvítvínunum. Þekktustu víngerðarsvæði á Spáni sem nánast eingöngu gera hvítvín eru líklega Rueda og Rías Baixas, þótt hvítvín séu vitaskuld gerð mjög víða, meðal annars í Rioja og um alla Katalóníu. Norð-vesturhluti Spánar er samt sem áður líklega sá mest spennandi og þar er einmitt Rías Baixas. Önnur svæði á þessum slóðum sem allir ættu að gefa gaum eru td Monterrei, Ribeira Sacra, Ribeiro og svo það svæði þaðan sem þetta vín kemur, Valdeorras. Þarna eru brúkaðar staðbundnar þrúgur einsog Treixadura, Loureiro, Doña Blanca og svo Godello, en þetta vín er einmitt úr þeirri þrúgu. Þetta vín er gyllt að lit með grábleikum tónum og hefur meðalopna angan sem er nokkuð steinefnarík en annars eru þarna grænir og kryddaðir tónar áberandi einsog stikilsber, melóna, hvít blóm, sítróna, læm, græn epli og blautur steinn. Það er svo þurrt og sýruríkt með áberandi sölt steinefni í eftirbragðinu en einnig eru þarna sítrónur, greipaldin, læm, grænt epli, stikilsber og þótt það sé salt þá eru þarna einnig feitir tónar sem lengja bragðið og lyfta því upp. Ferskt, skemmtilegt og óvenjulegt hvítvín sem er frábært með matnum. Ég sting uppá skelfisk, salötum, saltfisk og bökum þótt það sé afar fjölbreytt og gangi með margskonar öðruvísi mat. Verð kr. 2.299.- Frábær kaup. “