Ramon Roqueta Tina 3 Garnacha 2017
Vínótek segir;
Einhver bestu kaupin í hilllum vínbúðana undanfarin ár hefur verið Ramon Roqueta Reservan sem er blandað úr Tempranillo og Cabernet Sauvignon og svo því sé haldið til haga þá fékk árgangurinn 2010 þrjár og hálfa stjörnu hérna í Víngarðinum á sínum tíma, en árgangarnir 2012, 2013 og 2014 allir fjórar stjörnur. Sé það tekið með í reikninginn að vínið er undir tvöþúsund krónum þá hljóta það að teljast ein öruggustu og bestu kaupin á Íslandi.
Þetta vín er hinsvegar lagað úr þrúgunni Garnacha (sama þrúga og hin franska Grenache) og kemur frá Katalóníu, rétt einsog hin vínin frá Ramon Roqueta. Það hefur meðaldjúpan, kirsuberjarauðan lit og ríflega meðalopna angan sem er afar dæmigerð fyrir Garnacha; kirsuber, hindber og jarðarber, fylltur lakkrís og Mon Chéri-molar í bland við létt-reykta viðar- eða jarðartóna. Það er rétt ríflega meðalbragðmikið í munni með fína sýru og sætan og svolítið alkóhólríkan grunn. Þarna eru kirsuber, hindber, Mon Chéri-molar, lakkrískonfekt, karamella og kryddgrös. Fínasta hversdagsvín en auðvitað ekkert tiltakanlega fínlegt, þrúgan og aldurinn bera það einhvernvegin með sér, en er prýðlegt með allskonar bragðmeiri hversdagsmat, pottréttum, pasta, grilli og pítsum.
Verð kr. 1.899.- Mjög góð kaup.