Cune Ribera Del Duero Roble 2015
Vinotek segir;
Spænska vínhúsið Cune hefur löngum verið eitt það fyrirferðarmesta og mikilvægasta í Rioja en hefur á síðustu árum eins og mörg vínhús þar fært aðeins út kvíarnar með framleiðslu vína frá öðrum þekktum svæðum. Þetta rauðvín er þannig frá Ribera del Duero þar sem Tempranillo-þrúgan er notuð, rétt eins og í Rioja. Flokkun vínanna í Ribera er aðeins öðruvísi en í Rioja. Yngstu vínin eru yfirleitt nefnd Joven (ung) eða Roble (eik) eða jafnvel Joven Roble en það gefur til kynna að vínið hafi verið að minnsta kosti í ár á tunnu áður en því var átappað. Vínið er því enn mjög ungt sem sést vel á lit þess sem er dökkrauður og djúpur. Angan vínsins einkennist af rauðum berjum, kirsuberjum, smá reykur og vanilla, þétt og öflugt, tannín kröftug en mild, vín sem mun þroskast vel næstu 2-3 árin. 2.499 krónur. Frábær kaup. Vín með grilluðu kjöti, ekki síst nautakjöti eða lambalæri.