Saint Clair Omaka Reserve Chardonnay 2016
Víngarðurinn segir;
Vínin frá Saint Clair-víngerðinni á Nýja-Sjálandi ættu að vera öllum kunn. Það vín sem oftast hefur ratað inn á borð Víngarðsins er auðvitað Vicar’s Choice Sauvignon Blanc sem mörg ár í röð hefur verið afar traustur fulltrúi hins nýsjálenska Sauvignon Blanc-stíls. Þeir gera reyndar margskonar önnur vín og það besta sem ég hef smakkað frá þeim framtil þessa er þetta hér, Omaka Reserve Chardonnay sem stendur fyllilega samanburðinn við góð Village- og Premier Cru vín frá Búrgúnd. Og það á verði sem erfitt er að finna á þeim slóðum.
Þessi Chardonnay er gylltur að lit með rétt ríflega meðalopinn og búttaðan ilm sem minnir á kremaða Búrgúndara frá Meursault eða Chassagne þar sem finna má sæta sítrónu, ristaða eik, nektarínur, steinaávexti, eplaböku, kryddgrös og smjördeig. Það er svo nokkuð bragðmikið í munni með góða fiturönd um miðjuna og ýturvaxinn ávöxt þar sem greina má sæta sítrónu, eplaböku, peru, steinaávexti, greipaldin, smjördeig, heslihnetur og ristaða eik. Það hefur mikla lengd og ákaflega gott jafnvægi og er ennþá ungt og frísklegt. Hafið með ykkar bestu fiskréttum, humar og hörpudiskur ættu að passa vel með þessu en eins bragðmeiri fiskur einsog sólkoli og skötuselur. Fínt líka með allskonar bragðmeiri forréttum.Verð kr. 3.299.- Frábær kaup.