Villa Wolf Riesling 2019
Víngarðurinn segir;
Einhver skemmtilegustu vínin sem ég versla mér reglulega eru vínin frá Ernst Loosen sem hann gerir í Pfalz. Þetta eru vín sem virka allan ársins hring þótt ég verði að játa að rósavínið Pinot Noir Rosé sé meira á borðunum yfir sumarið. Pinot Gris vínið frá honum hefur reglulega fengið fjórar stjörnur eða fjórar plús, hér í Víngarðinum, og þessi Riesling er af sömu sort, frábært og vel prísað hvítvín sem er ákaflega fjölhæft.
Það er strágult að lit með grænni slikju og það inniheldur örlitla kolsýru (rétt einsog rósavínið og Pinot Grísinn) sem eykur enn á frískleikann. Það er meðalopið í nefinu með klassíska angan af hvítum ferskjum, læm, sítrónu, grænum eplum, olíkenndum steinefnum, strokleðri og vaxi. Það er svo meðalbragðmikið með ákaflega flotta sýru (og spritz). Þarna má rekast á sítrónu, græn epli, ferskjur, læm og feita steinefnatóna. Það hefur örlitla sætu í undirtóninum sem virkar vel á móti þessari sýru svo jafnvægið er sérlega gott. Virkilega vandað og ákaflega ljúffengt vín sem fer vel með allskonar mat. Prófið það með forréttum, salötum, asískum mat, pasta eða fiski.
Verð kr. 2.495.- Frábær kaup.