Willm Grand Cru Kirchberg de Barr Riesling 2015
Vinotek segir;
„Kirkjuhæðin við Barr eða Kirchberg de Barr er ein af Grand Cru-ekrum Alsace-héraðsins en í þann flokk falla alla bestu vínekrur héraðsins sem í gegnum aldirnar hafa sýnt fram á einstök sérkenni. Fyrir tugmilljónum ára var þetta svæði undir hafi og smátt og smátt myndaðist jarðfræðilega margslunginn jarðvegur á hafsbotninum. Þessi jarðvegur sem nú má finna í jarðlögunum í hlíðunum upp af Rín myndar kjöraðstæður til vínræktar.
Ekran Kirchberg er á hæð sem teygir sig upp frá Saint Martin-kirkjunni í bænum Barr en þar er vínhúsið Maison Willm einnig til húsa. Þetta Riesling-vín er magnað. Gullið á lit, þykkt og feitt, steinolía og sykurlegnar sítrónur, sítrónukaka, þykkt og langt með þægilega sætum ávexti. 3.499 krónur. Frábær kaup. Magnað vín fyrir vandaða fiskrétti þess vegna með þykkum og bragðmiklum sósum.“