Willm Riesling Réserve 2018
Víngarðurinn segir;
„Víngerðin Willm er Íslendingum að góðu kunn og vínin frá henni hafa lengi staðið okkur til boða. Hennar heimabyggð er í nágrenni við bæinn Barr, norðarlega á því skilgreinda víngerðarsvæði sem við þekkjum sem Alsace. Þar er ein skilgreind Grand Cru ekra sem kallast Kirchberg de Barr og þaðan kemur þekktasta og besta vín Willm, Gewurztraminer Clos Gaensbronnel sem ár eftir ár er einhver besti Gewurztraminer sem finna má á í Frakklandi. Þetta vín er þó ekki upprunið á Grand Cru ekrunni en er engu að síður afar frambærilegur Riesling.
Ég held því fram að hin hvíta Riesling-þrúga sé ein af fimm bestu hvítvínsþrúgum veraldarinnar og þar sem hún er orðin nokkuð útbreidd um heimin hefur hún margar og ólíkar birtingarmyndir. Riesling frá Alsace er sannarlega ávaxta- og steinefnaríkur en hann er líka mun feitari og efnismeiri en td þau Riesling-vín sem gerð eru austan Rínarfljótsins.
Þetta vín er gyllt að lit og býr yfir meðalopinni angan sem er ákaflega dæmigerð. Þarna má greina sítrónu, gul epli, eplaböku, olíurík steinefni sem minna á koppafeiti, hunang, kamillute og blómlega tóna sem minna á vallhumal og baldursbrá. Það er svo þurrt og sýruríkt með þéttan ávöxt og ákaflega gott jafnvægi svo útkoman er sérlega endingargóð, dæmigerð og matarvæn. Þarna má rekast á sítrónu, gul epli, greipaldin, lime, olíukennda steinefnatóna og kryddgrös. Hafið með allskonar forréttum, bragðmeiri ostum, bökum, reyktum fiski og asískum mat. Þetta vín þolir býsna bragðmikla rétti.
Verð kr. 2.699.- Frábær kaup. “