Louis Jadot Couvent des Jacobins Chardonnay

 

 

Vingarðurinn segir;


Það er greinilegt að íslenskir neytendur kunna vel að meta vínin frá Louis Jadot, sem er ákaflega skiljanlegt. Sérstaklega hinn rauða Couvent des Jacobins en sjálfum þykir mér hinn hvíti vera enn betri og þótt árgangurinn 2019 sé ekki alveg eins ótrúlega góður og 2018 þá er þetta úrvalsvín sem unaður er að njóta.

Einsog ég sagði þá var árgangurinn 2018 svo furðulega góður að hann kom mér jafnvel á óvart og maður hafði grun um að varla væri hægt að toppa hann í bráð. 2019 kemst fast upp að hlið hans og lendir þar í hópi kannski þeirra þriggja bestu af síðustu tíu árgöngum, sem ætti að vera góð ástæða fyrir þá sem enn hafa ekki orðið sér útum flösku, að fara nú af stað og prófa.

Það þarf varla að segja frá því að vínið er eingöngu úr Chardonnay, og fær einhver hluti af víninu þroskun í (þó ekki spánýrri) eik. Það býr yfir strágylltum lit og rétt rúmlega meðalopinni angan þar sem greina má soðin rauð epli, hunang, perujógúrt, hvít blóm, ananas, sæta sítrustóna, steinefni, smjördeig og létta eik. Hinir laktísku tónar eru auðvitað áberandi og gefa þessm ilm mýkt og sætu. Það er svo meðalbragðmikið með ákaflega góða sýru og framúrskarandi jafnvægi, ferskt og elegangt með meiri lengd en maður á að venjast með venjulega Bourgogne Chardonnay. Þarna eru epli, sætur sítrus, steinefni, hunang, ananans, smjördeig, perujógúrt og vanilla. Verulega gott og dæmigert hvítvín sem fer vel með allskonar forréttum, feitari fiski, ljósu pasta og ljósu fuglakjöti.

Verð kr. 3.695.- Frábær kaup. 

Post Tags
Share Post